Monday, January 18, 2016

SYDNEY, BUS TRIP & PEEL WEEK








SYDNEY + PEEL WEEK
Jú sælt veri fólkið og gleðileg jólin!! Takk fyrir gott ár og velkomin aftur eftir rúmlega tveggja mánaða „pásu“ og ég hef enga betri afsökun en að það er bara búið að vera mikið að gera. Ég ætla að skipta þessum mánuðum niður í parta og byrja á því að segja ykkur frá því þegar ég fór ásamt 10 skiptinemum til Sydney og keyrðum til baka (tæplega 4 þúsund km). Við byrjuðum á því að taka vélina til Sydney. Þegar við mættum á áfangastað tékkuðum við okkur inn og byrjuðum strax að skoða okkur um. Við fórum niður í bæ á bryggjuna og tókum svo ferju sem sýndi okkur stóru brúna  og óperu húsið. Svo borðuðum við kvöldmat á bryggjunni og héldum heim. Næsti dagur var frekar pakkaður því við fórum á brúna og gerðum nokkuð sem kallast „Bridge climb“ og við fengum leiðsögumann til að taka okkur í gegnum óperu húsið. Klifrið var alveg æðislegt, útsýnið með því besta sem ég hef séð og góð reynslusaga í bakpokann. Þegar við komum niður þá tók við óperu húsið fræga... Við fengum leiðsögn og kíktum inn í nokkra salina sem var bara fínt. Þetta var ekkert stórkoslegra en Harpan en að utan er það virkilega flott. Það sama kvöld fórum við út að borða á bát sem sigldi um meðan við snæddum kvöldverð. Það var alveg æðislegt að sjá brúna og öll ljósin um kvöld og sigla um, alveg geggjuð upplifun! Næsta dag fórum við svo á stað sem kallast „Blue Mountains“ þar sem við eyddum deginum að skoða okkur um í umhverfi með mikið af trjám og fjöllum. Svo seinasta daginn þá byrjuðum við á því að fara á markað sem virkar mjög svipað og kolaportið, þar keypti maður minjagripi og fleira svoleiðis. Síðan í hádeginu fórum við upp í hæsta turninn í Sydney og gæddum okkur á fínasta hlaðborði þar sem ég smakkaði meðal annars krókódílapylsu en það var alls ekkert spes, frekar þurrt kjöt. Á meðan maður var að borða þá snérist turninn hægt í hringi svo maður sá yfir alla borgina, ekkert smá fínt útsýni. Um eftirmiðdaginn skelltum við okkur svo á frægustu strönd í Ástralíu eða Bondi beach, hún var venjuleg miðað við þær sem ég er búin að sjá hérna en var samt mjög ánægð með að hafa séð bondi (:

Þá er Sydney ferðalagið á enda en við vöknuðum eld snemma næsta dag til að taka einka rútu alla leiðina til Perth! Það ferðalag var mjög sérstakt, útsýnið var fjölbreytt og við fengum að sjá mikið af nýjum hlutum. Ferðin tók 7 daga og við þurftum að sofa á gólfinu í rútunni á einangrunardýnum, pissa og kúka úti, fengum að fara í sturtu 2 sinnum og í bæði skiptin í 5 mínútur (með því að gera sig til fyrir og eftir), elda einfaldan útilegu mat og fleira í þeim dúr. Það var ekki það skemmtilegasta að sitja í rútu í 7 daga en góður félagskapur gerði gæfumun! Ekki eitthvað sem ég myndi gera aftur en klárlega eitthvað sem ég hefði ekki viljað missa af. Við stoppuðum á fullt af stöðum með myndatækifærum og langflestir Ástralir hafa ekki einu sinni prufað þetta.

Þegar við komum til baka tók við vika af vatnssporti og fleiru skemmtilegu með öllum skiptinemunum 13 (tók samt fyrst góða sturtu;)). Til dæmis fórum við á kanó, surf, prufuðum mismunandi sundlaugar, life saving club, fórum á ströndina og margt margt fleira.
Þá eru þessar þrjár vikur á enda og þetta var allt saman frábært ævintýri sem ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að upplifa. Annars er ég bara búin að vera í sumarfríi og ég þarf að segja ykkur frá því sem ég hef verið að gera í fríinu í annarri færslu, vonandi bráðlega J Takk fyrir að lesa!!

ps. ef þið hafið áhuga þá bjó einn skiptineminn til myndband úr ferðinni, skil eftir link hérna 
https://www.youtube.com/watch?v=fLg7UR1q-vo

Friday, November 6, 2015

HOLIDAYS og þriðji mánuðurinn








Fyrir cirka 3 vikum eða svo var 2 vikna frí í skólanum hjá okkur. Ég og Layla ákváðum að skella okkur til Perth sem er stórborgin hérna í Vestur Ástralíu í 10 daga. Við gistum hjá vinafólki foreldra Laylu fyrstu 5 dagana og svo restina hjá trúnaðarmanninum okkar. Við komum seinni part dags á áfangastað svo við ákváðum að fara með konunni sem við gistum hjá á ströndina að sjá sólsetrið sem var sko alls ekki sem verst. Næsta dag fórum við á ströndina, kíktum í nokkrar búðir og fórum út að borða. Svoleiðis hélt fríið áfram í lúxus lífi. Við prufuðum til dæmis paddle boarding en þá er maður á brimbretti með árar til að róa áfram, frábært sport sem ég mæli eindregið með!! J Svo fórum við í dýragarðinn og líka dýragarð með dýrum sem lifa í vatni, þetta var allt mikil upplifun og skemmtun. Við sáum líka borgarljósin um kvöld  og heilt yfir var þetta æðislegt skólafrí. Eina helgina var svo grand final í aussie rules football sem er leikur sem er bara til í Ástralíu og er virkilega vinsæll. Mitt lið var í úrslitum en tapaði því miður og tapaði mjög stórt, en þetta var samt skemmtileg stemmning þar sem við grilluðum og fengum nokkra skiptinema í heimsókn til okkar. Lang flestir íbúar Ástralíu horfa á þennan leik svo þetta var skylduáhorf. Síðan hélt skólinn áfram og nú er soccer season í fullum gangi, það er leikur á hverjum laugardegi og það er alltaf jafn mikil tilhlökkun hjá mér eins og þið voruð kannski búin að ímynda ykkur! J Er mjög heppin með lið og við erum búin að vinna alla leikina og erum mjög góð liðsheild. Er svo að fara í svaka ferðalag á mánudaginn næstkomandi en þá flýg ég ásamt hinum skiptinemunum til Sydney sem tekur um það bil 4 klst og við munum dvelja þar í 4 nætur. Eftir það tekur svo við 9 daga rútuferð og útilega því við keyrum til baka og stoppum á nokkrum túrista stöðum og gistum í tjaldi og fleira skemmtilegt. Svo komum við til baka og þá tekur við nokkurs konar camp með skiptinemunum þar sem við prufum fullt af nýjum hlutum eins og vatns íþróttir. Ég mun segja ykkur meira frá því þegar ég kem til baka! Í dag var svo seinasti skóladagurinn minn því þegar við komum til baka er komið sumarfrí þangað til í febrúar J Ég skelli nokkrum myndum frá fríinu með í þessa færslu en fleiri myndir getið þið séð í myndaalbúminu mínu á facebook! Svo verð ég að biðjast fyrirgefningar á því að hafa ekki bloggað lengi en netið er búið að liggja niðri frekar lengi hérna hjá nýju host fjölskyldunni en vonandi er það bara komið í lag núna, annars þakka ég lesturinn og ég heyri í ykkur síðar J
Snædís



Friday, September 25, 2015

CAPE TO CAPE + PERTH

Við Molly eftir 8klst göngu



Útsýnið

Skiptinemarnir í vestur Ástralíu 

Við Layla með trúnaðarmanninum okkar Paul og Ross sem er yfir öllu 

Miðvikudaginn 16 september lagði ég af stað ásamt nokkrum krökkum úr skólanum í þriggja daga göngu. Svæðið heitir Cape to Cape og er nokkuð þekkt gönguleið hérna í vestur Ástralíu. Við byrjuðum á því að fara með rútu að dropasteinshelli þar sem við fengum smá leiðsögn og skoðuðum okkur um. Eftir það byrjuðum við að labba af stað og löbbuðum í um það bil einn og hálfan tíma eða um 4-5km í sól og blíðu. Útsýnið var alveg fáránlega fallegt og við tókum öll fullt af myndum. Svo lá leiðin á tjaldsvæðið þar sem við settum um tjöldin okkar og elduðum kvöldmat. Næsti dagur var ætlaður mikilli göngu en við löbbuðum um 30km og vorum að í 8 klst. Þann dag var virkilega heitt og sólin skein allan tímann. Stígarnir sem labbað er á eru misjafnir en stundum var skógur, stundum vegur og stundum sandur. Það var lang erfiðast að labba í sandinum og sérstaklega í bröttum brekkum, það tók vel á kálfana. Við vörum öll mjög þreytt eftir þann dag svo við fórum nánast beint að sofa eftir sturtu og kvöldmat. Á þriðja degi vöknuðum við snemma til að taka allt dótið saman og löbbuðum svo um 4 km til að klára gönguna en það tók okkur cirka klukkutíma. Næst var planið að fara í „steinaklifur“ eða rock climbing og á leiðinni þangað stoppuðum við í bakaríi þar sem ég fékk mitt fyrsta pie sem smakkaðist bara nokkuð vel. Pie er nokkurs konar deig (pastry)  með kjöti og brúnni sósu inní og er mjööööög frægt hérna, allir voru hissa á því að ég hefði aldrei smakkað það áður. Svo fórum við í klifurhúsið og vorum þar í rúman klukkutíma. Á bakaleiðinni þurftum við að stoppa og hleypa mér út því ég var að fara beint til Perth að hitta alla hina skiptinemana í umdæminu. Perth er höfuðborg fylkisins sem ég bý í en þar búa 1,8 milljón manns og það tekur um 3,5 tíma að keyra þangað. Um kvöldið fórum við öll á úrslitaleik í hokkí en einn af skiptinemunum var að spila þann leik. Við fórum á ströndina, á markað í bænum, hlustuðum á nokkra fyrirlestra, kynntumst hvert öðru, spiluðum fótbolta og margt annað skemmtilegt. Þá sömu helgi smakkaði ég kengúrukjöt í fyrsta skipti!! Jafnast á við nautakjöt, svo gott er það. Núna fáum við 2 vikna skólafrí og ég og Layla erum að fara til Perth sem verður vonandi frásögu færandi og ég skrifa um það þegar ég kem til baka! Takk fyrir að lesa, bestu kveðjur frá mér! :D

Thursday, September 24, 2015

Tveir mánuðir


 Bollywood 

 Húsið

Ástralskur bolti

Skiptinemar Manjimup í blaðinu



Jæja nú eru liðnir tveir mánuðir og ég biðst afsökunar á því að vera ekki búin að blogga meira, það er búið að vera mikið að gera og tíminn líður mjög hratt! Nú er maður farin að kynnast aðeins fleiri krökkum og helgina eftir að ég skrifaði seinast fórum við Layla með 2 strákum úr skólanum sem heita Jacob og Jesse í mini golf, borðtennis, airhokkí og fleira skemmtilegt. Sömu helgi var mér boðið í Bollywood party hjá einni vinkonu sem heitir Raghavi og er frá Indlandi en hefur búið hérna síðan hún man eftir sér. Foreldrar hennar voru að halda þetta og hún fékk að bjóða mér með. Þetta var mjög skemmtileg upplifun og það voru indverskir kjólar, matur og allur pakkinn. Á mánudeginum fór ég svo á Rótary fund en það er búist við því að við komum í hverri viku á fund. Það er þó í góðu lagi þar sem fólkið er mjög fínt og við Layla erum saman. Á þriðjudeginum prufaði ég svo skvass með sömu strákum og það var mjög fínt, öðruvísi en ég hélt, maður þarf að læra tæknina en gaman að prufa J Svo erum við Layla búnar að fara að horfa á ástralskan fótbolta tvær helgar í röð og seinni helgin var úrslit og þá voru til dæmis strákar úr okkar árgangi að spila. Það er mjög skemmtilegt að horfa á þessa íþrótt þegar maður er búin að læra aðeins á reglurnar. Svo er ég búin að fara á ostagerðarnámskeið sem var frekar spes og langdregið en góð reynsla engu að síður, við fórum í leikhús, ég fór út í fótbolta með nokkrum strákum sem var alveg nauðsynlegt fyrir mig því ég sakna þess alveg  afskaplega mikið, horfði í fyrsta sinn á leik af netball þar sem vinkona mín Jordy var að spila en hún mun koma til Íslands í janúar sem skiptinemi, og margt fleira. Í seinustu viku fór ég svo í heldur betur spennandi göngu með áfanga í skólanum og til Perth að hitta alla skiptinemana í þessu umdæmi. Ég ætla að gera sér bloggfærslu um það tvennt sem kemur vonandi bráðlega! Svo var fyrsta fótboltaæfing tímabilsins í gær og það var ekki minna en 25 stiga hiti, sól og logn. Eins og þið getið ímyndað ykkur var stelpan frá Íslandi auðvitað að þrauka í gegnum veðrið og svitnaði eins og ég veit ekki hvað. En það var frábært að komast loksins á alvöru æfingu en við æfum stelpur og strákar blandað svo það er nýtt og skemmtilegt og ætti að geta bætt leikinn hjá manni J Annars er allt voða gaman og gott hérna down under og frí er ekki langt undan en við fáum 2 vikur í frí sem byrja á morgun. Þá förum við Layla til Perth og ætlum að skoða okkur aðeins um. Ég er mjög ánægð hérna og ég var ekkert smá glöð eftir æfingu gærdagsins því ég sé fram á  gott og skemmtilegt tímabil.
Og talandi um fótbolta þá er kjellan orðin Íslandsmeistari með FH, frábær hópur sem ég er mjög stolt af að vera hluti af!! Já heyrðu gleymdi líka að segja ykkur að við vorum í blaðinu!! Tékkið á myndunum að ofan J Annars þakka ég fyrir lesturinn, ég er að hugsa um að skella í eitt stykki myndaalbúm á facebook fyrir fólk sem er áhugasamt um lífið hérna og svo getið þið líka followað mig á instagram og addað mér á snapchat ef vilji er fyrir hendi en ég er snaedisloga á báðu ;)

Bestu kveðjur, Snædís :D 

Wednesday, August 19, 2015

Einn mánuður!







Í dag er ég búin að vera í mánuð hérna í Ástralíu og þetta er búið að líða virkilega hratt! Svo er ég heldur betur orðin eldri en þegar ég skrifaði seinast því ég varð 17 ára á þriðjudaginn í seinustu viku J Fyrstu helgina í ágúst fórum við Layla (skiptinemi frá Belgíu, er í sama skóla) til Donnelly River. Það er staður þar sem kengúrur eru út um allt og maður fær poka með mat til að gefa þeim. Helgina eftir fór ég með fjölskyldunni til Albany og á leiðinni þangað fórum við í dýragarð þar sem við fengum að halda á eðlum og snákum. Við stoppuðum í öðrum dýragarði á bakaleiðinni og þar fékk ég að sjá kameldýr, lamadýr, kengúrur, kóalabirni og fleira. Á afmælisdaginn gisti ég hjá Laylu og dagurinn byrjaði á súkkulaðiköku sem host-mamma hennar bjó til. Ég fór í skólann og það var mjög fínt, síðan fór ég út að borða með Laylu og 4 öðrum stelpum úr skólanum. Vikan hélt svo áfram og á föstudeginum gisti ég aftur hjá Laylu og morguninn eftir fór ég á minn fyrsta ástralska fótbolta leik (þá er ég að tala um football ekki soccer). Við vorum þar allan daginn og horfðum á tvo leiki. Það var mjög fínt veður, hitastigið fór yfir 20 gráður og það var nánast enginn vindur (það er vetur í Ástralíu núna). Á sunnudeginum var ég komin aftur heim og fór að vinna aðeins á bænum með host foreldrunum, aftur var veðrið alveg frábært. Vikan byrjaði svo aftur á mánudeginum og allt gengur sinn vana gang. Ég er búin að mynda rútínu núna sem er þægilegt og mér finnst mjög skemmtilegt í skólanum. Ég hlakka til að fara í skólann og hitta alla krakkana, og svo er oft stemmning í skólabílnum og ég er búin að kynnast fólkinu þar líka! Ég er búin að fara á 2 fótboltaæfingar með nokkurs konar áhuga liði í Manjimup, á fyrstu æfingunni vorum við 6 og á seinni voru ég og umboðsmaðurinn einu sem mættu en ég tók þá bara æfingu sjálf. Þetta er auðvitað ekkert eins og heima en í október byrjar sumar tímabilið og þá eru krakkar á mínum aldri sem æfa og stelpur og strákar spila saman. Það hljómar vel og ég er orðin mjög spennt fyrir því J Skrifa svo síðar, takk fyrir að lesa!! Bkv, Snædís

Tuesday, July 28, 2015

FIRST WEEK!


Kings Park


 Windy Harbour
Windy Harbour

Nú hefur fyrsta vika skiptinámsins tekið enda og hún hefur verið alveg hreint frábær! Flugið gekk vel, ég flaug frá Keflavík til Osló, þaðan til Doha í Qatar og síðan á áfangastað í Perth þar sem fullt af fólki tók vel á móti okkur. Fyrstu tvær næturnar gisti ég í Perth og strax á fyrsta degi byrjaði fjörið! Við byrjuðum daginn á því að fara í dýragarð þar sem ég og Lorna (skiptinemi frá Mexico) fengum að halda á kóalabirni, klappa og gefa kengúrum að borða og sáum fleiri dýr, til dæmis: Emu, pony hesta, asna, broddgölt og dingo hund. Að því loknu héldum við á skauta, fórum í Kings Park þar sem maður hefur útsýni yfir Perth, á ströndina og að vatni þar sem ég sá svartan svan í fyrsta skipti. Dagurinn stóð svo sannarlega undir væntingum. Næstu tvær nætur gisti ég á bóndabæ hjá konu sem ræktar trufflusveppi og ég fékk að fylgjast með ferlinu og meðhöndluninni. Á föstudaginn var svo fyrsti skóladagurinn minn, allt gekk vel og fólk var mjög vinalegt og hjálplegt. Áfangarnir sem ég er í eru: Human Biology, History, English, Sports, Outdoor Education og Maths. Seinna á föstudeginum fór ég svo til fyrstu Host fjölskyldunnar sem býr á bóndabýli nálægt bæ sem heitir Northcliffe. Í fjölskyldunni eru mamman, pabbinn, tveir bræður, hundur og fullt af kengúrum í garðinum. Þau eru fínasta fólk. Um helgina fór ég svo á námskeið um hvernig á að finna trufflur með host pabbanum og einum host bróður, fórum í nokkurs konar fjallgöngu upp á stóran stein þar sem við gátum séð allan sjóndeildarhringinn, skoðuðum strönd og kletta á stað sem heitir Windy Harbour. Þar er virkilega fallegt. Annars gengur allt vel og fólkið sem ég hef verið í samskiptum við er yndislegt!
Takk fyrir að lesa! J
Snædís


//The first week in Australia has been amazing! The flight went well and a lot of people welcomed us when we arrived at the airport. At my fist day in Perth, Lorna, Lisa, Harry (previous exchange students and a man from Rotary) and I went to a „zoo“ where we got to see a lot of different animals like an Emu, Pony, Donkey and a dingo. There we also got to hold koala bears and feed and pet kangoroos. Then we went ice-skating, to Kings Park where you have the veiw of Perth,to the beach and to a river where I saw a black swan for the first time so this day was amazing. The 2 following nights I stayed at a farm with a woman who grows truffles so I got to watch the process. On Friday it was my first day of school, everything went well and people were really nice and helpful. The classes I‘m in are: Human Biology, History, English, Sports, Outdoor Education and Maths. After school on Friday I got to meet my first host family that lives on a farm near a town called Northcliffe. In the family are a mother, a father, 2 guys, a dog and a lot of kangoroos in the back yard. They are all really nice people. This weekend I went to a truffle course with the host father, went hiking to a big rock where you can see the horizon and the ocean and explored a beach and some cliffs at Windy Harbour. That was really beautiful. Anyways, everything is going well and the people I‘ve met are really nice! Thanks for reading J
Snædís